Spurning hvað gerist þegar verðtryggingin fer

Upptaka Evru myndi væntanlega leiða til þess að verðtrygging (húsnæðis-)lána yrði afnumin. Þegar skoðaðir eru vextir í ESB löndum með Evru virðist stærð ríkis og viðvarandi viðskiptahalli hafa hvað mest áhrif á vexti. Vextir í þeim löndum sem svipar til efnahags Íslands virðast vera í kringum 7-8%. Það er ekkert langt frá því sem var á árunum 2018-2023 á óverðtryggðum lánum á Íslandi. Helsti munurinn liggur í tímabilinu og sveiflunum. Þannig að helsti akkurinn með upptöku yrði vonandi meiri stöðugleiki, þ.e. ekki sveiflur frá 6-10% eins og gjarnan hefur verið á Íslandi.  


mbl.is Evran þýðir ekki lægri vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvernig færðu það út að "Upptaka Evru myndi væntanlega leiða til þess að verðtrygging (húsnæðis-)lána yrði afnumin." ? Hvaðan kemur sú hugmynd eiginlega?

Verðtrygging lánsfjár byggist á íslenskum lögum og eina leiðin til að losna við hana er að breyta þeim lögum. Frumvarp þar að lútandi hefur margoft verið lagt fram á Alþingi.

Það er einfaldlega ranghugmynd að þetta málefni hafi eitthvað evruna að gera eins og sendifulltrúi ESB á Íslandi staðfesti á fundi fyrir ca. 15 árum síðan.

Það kom honum sýnilega á óvart þegar honum var tjáð að fylgismenn ESB aðildar á Íslandi væru að nota slík falsrök fyrir málstað sínum.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.2.2025 kl. 02:11

2 Smámynd: Gunnar Sigfússon

Grundvöllur laga um verðtryggingu byggist á því að um íslenskar krónur sé að ræða.

Með innleiðingu Evru þarf að breyta þeim lögum.

Nú spyr ég á móti, af hverju heldurðu að (neytenda-)lán í erlendri mynt séu ekki vertryggð á Íslandi?

Gunnar Sigfússon, 28.2.2025 kl. 11:09

3 Smámynd: Gunnar Sigfússon

Sem sagt ég hvet þig að fá verðtryggt lán í erlendri mynt svo að það sé skýrt :)

Gunnar Sigfússon, 28.2.2025 kl. 11:13

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er alls ekkert sérstaklega grundvöllur laga um verðtryggingu að um íslenskar krónur sé að ræða. Setningin í 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sem heimilar verðtryggingu er svohljóðandi: "Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði." - Þar er hvergi talað um að það skipti máli í hvaða gjaldmiðli lánsféð er. Þannig er til dæmis ekkert sem bannar neinum á Íslandi að veita verðtryggt lán í evrum, dollurum, dínörum eða hvaða gjaldmiðli sem er, svo lengi sem grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Með öðrum orðum eru lagaheimildir til verðtryggingar algjörlega hlutlausar gagnvart gjaldmiðlum.

Ástæða þess að (neytenda-)lán í erlendri mynt eru ekki verðtryggð hefur ekkert með lagaheimildir að gera heldur er það einfaldlega ákvörðun lánveitanda hvort hann býður slík lán með eða án verðtryggingar. Með öðrum orðum er ástæðan fyrir því að slík lán eru ekki verðtryggð einfaldlega sú að lánveitendur hafa ekki ákveðið að bjóða þau með verðtryggingu. Hitt er svo annað mál að samkvæmt núgildandi lögum um neytendalán og fasteignalán til neytenda eru mjög strangar takmarkanir fyrir veitingu lána í erlendum gjaldmiðlum sem þýða í reynd að slík lán eru ekki boði nema fyrir þá sem hafa tekjur í sömu erlendu mynt og lánið (eða á mun lakari kjörum). Sama gildir á hinn veginn þannig að t.d. Íslendingur búsettur í Noregi með tekjur í norskum krónum getur ekki tekið lán á Íslandi í íslenskum krónum nema samkvæmt sömu ströngu skilyrðum sem gera þau óhagstæðari en ella. Þannig má í raun segja sem svo að lán í erlendum gjaldmiðlum séu ekki raunhæfur valkostur fyrir Íslendinga með íslenskar tekjur þar sem þau eru alltaf óhagstæðari eða háð mun strangari skilyrðum en lán í krónum. En þetta var útúrdúr.

Kjarni málsins er sá að það er ekkert beint samhengi á milli íslenskra laga um verðtryggingu og nafnsins á gjalmiðlinum sem er notaður. Ef við viljum losna við verðtryggingu er það eina sem þarf að einfaldlega breyta þessum íslensku lögum og gera verðtryggingu óheimila á lánum til neytenda. Það er alveg hægt að gera með "pennastriki"  Á Alþingi án þess að gera neinar aðrar breytingar sanmtímis eins og að skipta um gjaldmiðil. Sú hugmynd að þetta sé "ekki hægt" án þess að skipta um gjaldmiðill er einfaldlega ranghugmynd. Það er einfaldlega söguleg staðreynd að krónan var gjaldmiðill Íslands áður en verðtryggingu var komið á og krónan getur því alveg eins líka verið gjaldmiðill Íslands eftir að verðtrygging hefur verið afnumin á lánum til neytenda.

Ef ég tek þennan sama punkt frá hinni hliðinni þ.e. frá sjónarhóli þeirra sem vilja að Ísland gangi í ESB og taki upp evru, þá gilda þær sömu staðreyndir að slíkt hefur enga beina tengingu við íslensk lög um verðtryggingu. Allar reglur sem gilda um lán til neytenda í Evrópusambandinu gilda nú þegar á Íslandi í gegnum EES samninginn og ef Íslandi myndi ganga í ESB og taka upp evru myndu engar nýjar reglur bætast þar við sem hefðu áhrif á verðtryggingu á Íslandi. Það er nefninlega ekkert í regluverki ESB eða Myntbandalags Evrópu sem bannar verðtryggingu, eins og sendifulltrúi ESB á Íslandi staðfesti við mig á fundinum fyrir ca. 15 árum síðan. Þvert á móti er verðtrygging leyfileg í evruríkjum en tíðkast bara ekki þar á lánum til neytenda þó hún þekkist í öðrum tegundum samninga. Til dæmis eru laun embættismanna ESB verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs í Brüssel (sem er fyrir vikið kölluð "kampavíns- og kavíar vísitalan" í gríni). Sum ríki gefa líka út verðtryggð ríkisskuldabréf og það er svo sem allt í lagi enda eru ríkissjóðir ekki neytendur. Þetta allt þýðir að með inngöngu í ESB og upptöku evru myndi verðtrygging alls ekki hverfa af sjálfu sér á Íslandi, heldur þyrfti alltaf að breyta séríslenku lögunum um vexti og verðtryggingu til að girða fyrir veitingu verðtryggðra lána til neytenda, eins og sendifulltrúinn staðfesti. Allir sem halda að við inngöngu í ESB og upptöku evru myndi koma eitthvað teymi frá Brüssel til Íslands og strika yfir eða "tipp-exa" verðtryggingarskilmálana út úr öllum lánasamningum við neytendur, eru haldnir alvarlegum ranghugmyndun um grundvallarstaðreyndir. Ef Ísland myndi ganga í ESB og taka upp evru og íslensk stjórnvöld myndu ákveða á sama tíma ákveða að leggja fyrir Alþingi að breyta lögum um verðtryggingu til að gera hana óheimila á lánum til neytenda væri það auðvitað vel hægt þá eins og hvenær sem er, en að gera tvennt samtímis þýðir alls ekki að beint orsakasamhengi sé þar á milli.

Hvaða skoðun svo sem fólk hefur á ESB eða evru, er mikilvægt að það byggi þær skoðanir ekki á ranghugmyndum. Verðtrygging á lánum til neytenda er "heimasmíðuð" og enginn getur gert hana óheimila hér á landi nema Alþingi með lagabreytingu, alveg óháð öllu öðru.

P.S. Ég afþakka með öllu að fá verðtryggt lán í erlendri mynt og vinsamlegast ekki gera fólki í öðrum löndum þann óleik að reyna að hefja úflutning á slíkum hugmyndum. Við vorum nógu mikið hötuð þegar Eyjafjallajökull lamaði mestalla flugumferð í Evrópu. :)

Guðmundur Ásgeirsson, 1.3.2025 kl. 20:10

5 Smámynd: Gunnar Sigfússon

Tekið úr lögum 38/2001cum vexti og verðtryggingu (lögbirtingarblaðið skiptir engu máli).

"Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum"

Ath. að það sem stendur í 13. grein á við um um allan kaflann, líka greinina sem þú vísar í.

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr.
Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
[Skuldbindingar sem varða lánsfé í erlendum gjaldmiðlum og lánsfé þar sem greiðslur breytast í samræmi við gengi erlendra gjaldmiðla eða gengisvísitölur, þ.m.t. samsetta gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir, falla ekki undir ákvæði þessa kafla.] 1)

Gunnar Sigfússon, 2.3.2025 kl. 17:59

6 Smámynd: Gunnar Sigfússon

Sem sagt þegar þú ert með erlent lán sem er raunverulega í erlendri mynt ( sem sagt ekki í íslenskum krónum) þá er vísitalan reiknuð út frá öðrum forsendum. Helstu forsendurnar sem eru í dag eru þeir vextir sem fást á skuldabréf sem íslenskir aðilar (ríki, bankar og fyrirtæki ) gefa út í erlendum gjaldmiðlum og forvirkir gjaldeyrissamningar ("gengisvísitala"). Það var einn banki sem bauð upp á erlend lán með verðtryggingu en þurfti að bakka með það þegar farið var nánar að spyrja út í þaðog vísa í lögin ("í raun og veru lán í íslenskum krónum þótt gritt sé í evrum").

Varðandi af hverju við erum með verðtrygginguna er hægt m.a. að benda á þessa skýrslu: (og fleiri reyndar)

https://www.stjornarradid.is/media/fjarmalaraduneyti-media/media/utgafa/Verdtrygging_a_Islandi_mars_2010.pdf

Á blaðsíðu 16:

"Margir þættir hafa áhrif á vaxtastig (sjá fjármálakafla
og fræðilega hluta skýrslurnar) en hærri vextir og verðtrygging er sá kostnaður (auk
annars kostnaðar) sem Íslendingar greiða fyrir þann sveigjanleika sem felst í
sjálfstæðum gjaldmiðli. Gjaldmiðil sem er hægt að fella til að bæta samkeppnistöðu
landsins þegar áföll dynja yfir. Verðtrygging er því tæki til að takast á við ókostina
sem felast í því að vera lítið opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðill sem kemur
berlega í ljós í töflu 1 og mynd 13"

Varðandi sveiflurnar sem eru í tengslum við krónuhagkerfið (? líka í minni hagkerfum með eigin gjaldmiðil):

https://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=75e33ea4-0041-11e2-958d-001ec9ed9436

Þannig að ég tel þetta ágætis rök fyrir að sveiflur í vöxtum og afnám verðtryggingar myndi þurfa að eiga sér stað með upptöku evru. Svo auðvitað markaðsástæður eins og þú bendir líka á.

En auðvitað er tæknilega hægt að uppfæra lögin og bæta inn verðtryggingu út frá "nýrri" vísitölu með erelndum gjaldmiðli. Tel að það yrði samt ekki gert.

Gunnar Sigfússon, 2.3.2025 kl. 18:25

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott og vel. Fram til ársins 2001 var heimilt að nota gengi erlendra gjaldmiðla sem viðmið verðtryggingar, það var kallað gengistrygging en með lögunum sem voru sett 2001 var slík verðtrygging bönnuð. Aftur á móti þegar um er ræða lán sem er ekki krónum heldur raunverulegum erlendum gjaldmiðlum, þá er engin vísitala notuð því slík lán eru ekki verðtryggð, þau bera einfaldlega bara vexti.

Þrátt fyrir að reynt hafi verið að halda því fram eins og skýrslunni sem þú vísar til að verðtrygging sé einhverskonar séríslensk nauðsyn er það alls ekki rétt. Fullt af fólki á Íslandi er komið með óverðtryggð lán og greiðir bara af þeim vexti en engar verðbætur. Verðtrygging er alls ekki óhjákvæmileg afleiðing af nokkrum sköpðum hlut, þvert á móti er hún mannanna verk og mikil útbreiðsla hennar í lánum til neytenda hér á landi sjálfstæð uppspretta óstöðugleika og efnahagslegt skaðræði.

En til að koma aftur af upphaflega punktinum í færslunni þinni: "Upptaka Evru myndi væntanlega leiða til þess að verðtrygging (húsnæðis-)lána yrði afnumin." - Það er ekkert sjálfvirkt orsakasamband þarna á milli. Ef íslensk stjórnvöld ákveða að afnema verðtryggingu geta þau gert það hvenær sem er, hvort sem það myndi vera gert í tengslum við upptöku evru eða ekki og er eins hægt að gera alveg óháð breytingu á gjaldmiðli. Krónan getur alveg verið gjaldmiðill Íslands áfram þó verðtrygging yrði afnumin, eins og hún var fyrir upptöku verðtryggingar.

Ef við erum sammála um að það skuli afnema verðtryggingu (af lánum til neytenda) er vel hægt að gera það strax á morgun með því einu að samþykkja þetta frumvarp sem lög á Alþingi (sjá tengil): 109/154 frumvarp: vextir og verðtrygging o.fl.

Til þess að þetta geti gerst þyrfti þingmeirihlutinn auðvitað að setja málið á dagskrá og samþykkja það í atkvæðagreiðslu og þar stendu hnífurinn í kúnni en hvergi annarsstaðar og framgangur málsins veltur ekki á neinu öðru en þessu.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.3.2025 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Sigfússon

Höfundur

Gunnar Sigfússon
Gunnar Sigfússon
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband